Umhverfi og öryggi

Umhverfi og öryggi

Faxaflóahafnir hafa viðhaldið vottuðu umhverfis og öryggisstjórnkerfi undanfarin ár. Á árinu 2020 var ákveðið að sameina umhverfis og öryggisstefnu hafnarinnar enda skörun talsverð á málaflokkunum. Sameinuð stefna var  samþykkt í stjórn á vordögum 2021. Stefnuna má finna hér. 

 

Umhverfismál

Faxaflóahafnir sf. leggja áherslu á að vera leiðandi í umhverfismálum, að dregið sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni, unnið sé að stöðugum umbótum og að fylgst sé með frammistöðu í umhverfismálum.  

Faxaflóahafnir hafa haldið „Grænt bókhald“ frá árinu 2016 og er því ætlað að stuðla að aðhaldi og vöktun í fyrirtækinu en einnig góðri upplýsingagjöf og samskiptum við innri og ytri hagaðila. 

Grænt bókhald hafnarinnar má finna hér í heild sinni.

Á myndinni hér að ofan, sem er í grænu bókhaldi 2020, má sjá hvernig kolefnislosun dreifist á flokka. Eins og glögglega má sjá er uppruninn að mestu frá brennslu jarðefnaeldsneytis ásamt framleiðslu og flutningi þess (dráttarbátar, bifreiðar og akstur starfsmanna til/frá vinnu) eða 93% af allri kolefnislosun samtals 1.003 t CO₂. 

Faxaflóahafnir höfðu það að markmiði að verða kolefnishlutlausar strax fyrir árið 2020. Því er náð að mestu með miklum og góðum árangri í eigin skógrækt og endurheimt eigin votlendis sem nemur 855 t CO₂. Það sem á vantar verður jafnað með aðstoð innlendra aðila. 

Í ljósi þessa upplýsinga verður gripið til ýmissa ráðstafana á árinu 2021 til að minnka heildar-olíunotkun hafnarinnar. Þar má nefna orkuskipti bílaflota ásamt hvata til starfsfólks til orkuskipta auk þess sem stuðlað verði að grænni siglingamáta dráttarbáta með aðstoð kerfis sem stöðugt vaktar og hefur eldsneytiseyðslu sýnilega fyrir notendum. 

Útstreymisbókhald vegna skipakoma hefur verið haldið frá árinu 2016. Útstreymisbókhald má finna hér. Helstu niðurstöður eru að kolefnislosun er 32% minni en árið áður. Er það vegna minni skipaumferðar árið 2020 en árið áður. 

 

Öryggismál

Faxaflóahafnir byggja nálgun sína á vottuðu ISO 45001 öryggisstjórnkerfi.  

Í því felst að öryggisreglur hafa verið settar á grundvelli virks áhættumats fyrir starfsemina og gilda þær reglur jafnt fyrir starfsfólk og verktaka á vegum fyrirtækisins. 

Virk orsakagreining hjálpar til við að læra af reynslunni, koma í veg fyrir endurtekin atvik og uppfæra þau varnalög sem eru til staðar. 

Faxaflóhafnir hafa viðhaldið virku ábendingarkerfi þar sem starfsfólk, viðskiptavinir og almenningur geta sent inn ábendingar um það sem vel er gert og betur má fara. Í gegnum sama farveg koma allar skráningar um tjón, óhöpp og mengunaratvik sem koma upp. 

Starfsfólki, stjórnendum og stjórn er haldið upplýstum um atvik sem orðið hafa og er lögðmikil áhersla á orsakagreiningu atvika sem upp koma með það að markmiði að læra af og gera betur. 

 

Hér á eftir má sjá tölfræði helstu málaflokka samanborið við 2019. (Bláar súlur eru 2019) 

 

Slys – næstum slys

Fjarveruslysin eru enn of mörg en þó hafa fæst þeirra verið alvarleg . Skyndihjálparslysin eru vinnuaðferðatengd s.s. sorplosun, stunga, stigið í kapalspor og hlutur fellur á starfsmann. 

Við tökum öll meiðsli alvarlega en rannsökum sérstaklega þau alvarlegustu. Tilgangurinn er alltaf að finna tækifæri til að gera betur og koma í veg fyrir meiðsli og slys. 

 
Tjón – Óhöpp. 

Í fjórum tilfellum fór aðskotahlutur í skrúfu dráttarbáta en önnur óhöpp orsökuðu  smáskemmdir á bátum við vinnu í erfiðum aðstæðum. Gott er að ökutækjatjónum fækkaði úr 9 í 4 milli ára. 

 

 

 

 


Mengunartilvik

Flest mengunartilvik eru vegna olíu og eru smávægileg. Oftast eru þetta smátilvik sem valda sjónmengun eða eitthvað sem hefur hellst niður á jörðu og verið þrifið á eftir. Í gangi er átak að aðstoða starfsemi annarra aðila á hafnarsvæðinu við að geta brugðist við hraðar og á meðvitaðri hátt. Það átak hefur nú þegar skilað árangri. 

Gerlamengun er mæld reglulega í höfninni og eru þessi tilvik bæði í Vesturhöfn og uppruni þekktur. 

 

 

 


Ábendingar – Kvartanir 2019-2020

Faxaflóahafnir leggja mikið upp úr því að fá sem flestar ábendingar um  hvað megi betur fara. Flestar tilkynningar eru vegna öryggismála, enda áhersla hjá fyrirtækinu að tilkynna ef eitthvað þarfnast athugunar.  

Auk þess koma ábendingar um umhverfið okkar. Rétt er að benda á að langflestar ábendingar koma frá starfsfólki Faxaflóahafna.