Niðurlag

Niðurlag

Covid-19 faraldurinn setti mark sitt á rekstur Faxaflóahafna á árinu 2020. Brugðist var við tekjutapi einkum með því að draga úr framkvæmdum og náðist ásættanlegur rekstrarárangur á árinu en fyrirtækið skilaði hagnaði af reglulegri starfsemi. 

Efnahagur Faxaflóahafna er sterkur og fyrirtækið er vel í stakk búið til að mæta ágjöf, eins og sýnilegt var á síðasta ári. Vegna vaxtaumhverfis í lok árs 2020 var sú ákvörðun tekin að greiða upp langtímaskuldir fyrirtækisins og ber það nú engar langtímaskuldir. 

Á árinu 2020 hófst vinna við mat á umhverfisáhrifum Sundahafnarsvæðisins í heild. Á þessu ári er fyrirliggjandi vinna um skipulag svæðisins með tilliti til landnýtingar og þarfa fyrir frekari uppbyggingu. Áform um Sundabraut hafa verið kynnt og ljóst að verði þau áform að veruleika munu áhrifin verða umtalsverð í Sundahöfn. Vinnu um skipulag Sundahafnasvæðis er m.a. ætluð til að bregðast við þeim aðstæðum sem skapast, muni Sundabraut skera svæðið. Á Akranesi eru mikil tækifæri til framtíðar. Áformað er að bæta hafnaraðstöðuna þar og tryggja að höfnin geti áfram þjónað vel sem fiskihöfn en einnig að líta til annarra tækifæra svo sem í ferðaþjónustu. Nokkrar komur farþegaskipa eru þegar bókaðar árið 2021 til Akraness. Á Grundartanga verður áherslan á þróun iðngarðs með grænum áherslum. Innviðir eru afar góðir á Grundartanga, aðgangur að góðri höfn sem hefur stækkunarmöguleika, aðgangur að raforku, góðum samgöngum og síðast en ekki síst að öflugu vinnuafli. Nokkrir aðilar hafa lýst áhuga á framleiðslu vetnis og vetnisafleiða á Grundartanga og verður þeim áhuga fylgt eftir í samstarfi Faxaflóahafna, Hvalfjarðarsveitar og Þróunarfélags Grundartanga. 

Faxaflóahafnir hafa góð tækifæri til að þróa sína starfsemi áfram. Drög voru lögð að nýju skipulagi sem leggur áherslu á ferli eða tekjustrauma og hefur því verið fylgt eftir með innleiðingu á nýju ári. Ný öryggis-, heilsu og umhverfisstefna var undirbúin á árinu og innleidd á nýju ári. Þróun og þjálfun mannauðs er tækifæri til að mæta nýjum tímum og unnið er skv. nýjum vegvísi í þróun upplýsingatækni hjá Faxaflóahöfnum. Allt miðar að því að gera fyrirtækið sem best í stakk búið til að mæta kröfum framtíðarinnar um góða og skilvirka þjónustu, kröfum og væntingum um öruggar, grænar og snjallar hafnir. 

 Reykjavík, 22. júní 2021

Magnús Þór Ásmundsson,
hafnarstjóri.