Ávarp hafnarstjóra

Öruggar hafnir eru forsendan fyrir öllum öðrum árangri í hafnarstarfsemi. Öryggi starfsfólks og annarra sem starfa á hafnarsvæðum næst með sameiginlegu átaki allra, með innleiðingu öryggismenningar þar sem við látum okkur öll varða eigið öryggi, öryggi starfsfélaganna og þeirra sem njóta þjónustu hafnanna. Við höfum náð ágætis árangri og munum áfram setja öryggismál í fyrsta sæti hjá Faxaflóahöfnum.  

Framtíðin er græn og snjöll! Græn þar sem að stöðugt er unnið með grænar lausnir í uppbyggingu svæða og starfsemi hafnanna og snjöll þar sem skilvirkni og árangur næst með innleiðingu á stafrænum lausnum. Unnið er að mikilvægu verkefni um landtengingar flutningaskipa í Sundahöfn en landtengingar hafa þegar verið virkar í Gömlu höfninni um nokkur skeið. Landtengingar munu draga úr og vonandi á einhverjum tímapunkti koma í veg fyrir brennslu á eldsneyti í höfnum og stuðla þannig að auknum loftgæðum sem er afar mikilvægt þar sem höfn og borg mætast. 

Árið 2020 bar þess ótvírætt merki í rekstri fyrirtækisins að farsótt herjaði á heimsbyggðina. Tekjur drógust saman en brugðist var við með ráðdeild í rekstri og dregið var úr framkvæmdum. Farþegaskipin munu skila sér aftur til Íslands en mikill áhugi er hjá útgerðunum að hafa viðkomu á Íslandi. Batamerkin eru sýnileg 2021 þó komur farþegaskipa til landsins eigi langt í land með að ná fyrri hæðum og áhugi og bókun farþegaskipa til landsins fyrir árið 2022 er með allra besta móti. 

Ferðaþjónustan er orðin órjúfanlegur hluti hafnsækinnar starfsemi. Styttri ferðir frá Gömlu höfninni og víðar eru áberandi og svo iðandi mannlíf á söfnum, kaffihúsum og veitingastöðum á hafnarsvæðunum. Þetta er ánægjuleg þróun en höfum í huga að það sem gerir hafnirnar áhugaverðar er lifandi hafnarstarfsemi og helst mátuleg fiskilykt. Mikil ásókn er í lóðir á hafnarsvæðum en vanda þarf til skipulagsvinnunnar. Hafnarsvæði eru miðstöð nýsköpunar og öflugs atvinnulífs, hafnsækinnar starfsemi og þjónustu við hana. Stíga þarf mjög varlega til jarðar við þróun íbúðabyggðar á eða nærri hafnarsvæðum. 

Grænar og snjallar hafnir við Faxaflóa eru hornsteinn efnahags- og atvinnulífs á svæðinu. Sambýli hafnarstarfsemi og borgar er áskorun en á sama tíma er höfnin lífæð viðskipta og atvinnulífs á svæðinu. Sjóflutningar eru umhverfisvænn og hagkvæmur kostur og öflugar hafnir á SV horni landsins lágmarka kolefnisfótspor flutninga til svæðisins. Það eru stöðug tækifæri til umbóta og frekari uppbyggingar öruggra og grænna hafna og hafnarstarfsemi. Faxaflóahafnir munu halda þeirri þróun áfram til hagsbóta fyrir landsmenn alla. 

 

Reykjavík, 21. júní 2021
Magnús Þór Ásmundsson,
Hafnarstjóri