Inngangur
Inngangur
Árið 2020 einkenndist rekstur Faxaflóahafna af áhrifum COVID19 faraldursins og viðbrögðum við honum. Einn af stærri tekjupóstum félagsins, þjónusta við skip í ferðaþjónustu hvarf að mestu leiti og hafði það veruleg áhrif á afkomu þess. Vöruflutningar til og frá landinu drógust einnig saman með tilheyrandi frávikum í tekjum af vörugjöldum. Nánar má lesa um áhrif þessa í umfjöllun um afkomu ársins.
Lenging aðalhafnarbakkans í Akraneshöfn er stærsta verkefið í fimm ára fjárhagsramma Faxaflóahafna og hefðu framkvæmdir átt að hefjast á árinu 2020 en var frestað vegna faraldursins. Undir lok árs fundu stjórnendur Faxaflóahafna aftur fyrir auknum áhuga fjárfesta á uppbyggingu iðnaðar á Grundartanga. Eru nú í gangi viðræður við nokkra þeirra. Jafnframt eru Faxaflóahafnir þátttakandi í Þróunarfélagi Grundartanga, en markmið félagsins er að vinna stefnu um framtíðarstarfsemi á svæðinu á grundvelli nýsköpunar og umhverfisvænna lausna. Á haustdögum var lokið við frágang við söluhýsi og annarrar aðstöðu hafnsækinnar ferðaþjónustu á Ægisgarði. Þeim húsum hefur verið úthlutað og líf er að færast á Ægisgarð með auknum straumi ferðafólks. Lokið var við byggingu nýs rafdreifihúss á Faxagarði og mun það m.a. nýtast við uppbygginu landtenginga fyrir stærri skip en nú eru tengjaleg í Gömlu höfninni. Á árinu var skrifað undir samning við umhverfisráðherra, Veitur, Eimskip og Samskip um fjármögnun landtenginga fyrir gámaskip í Sundahöfn. Vonir standa til að fyrsta gámskipið geti tengst fyrir lok þessa árs. Nefnd á vegum samgönguráðherra vann að tillögum um legu Sundabrautar á árinu en skilaði þeim formlega eftir áramót. Megintillaga hópsins er þverun Kleppsvíkur með 30 metra hárri brú. Ljóst er að slík framkvæmd mun hafa töluverð áhrif á starfsemi hafnarinnar við Vogabakka. Samhliða þessari vinnu hófu Faxaflóahafnir vinnu við heildarskipulag svæðisins m.t.t. þeirrar framkvæmdar. Vinna við mat á umhverfisáhrifum fjögurra verkefna í Sundahöfn hófst á árinu og vonast er til að henni ljúki á þessu ári eða 2022.
Nýr dráttabátur sem hlaut nafnið Magni var afhentur Faxaflóahöfnum á árinu. Er hann töluvert öflugri dráttabátur en áður hefur haft heimahöfn á Íslandi og eykur öryggi við þjónustu stærri skipa töluvert. Vandamál í frágangi bátsins komu fljótlega í ljós og sömdu Faxaflóahafnir við skipasmíðastöðina um nokkrar lagfæringar. Magni var svo afhentur aftur á þessu ári endurbættur og tekinn í notkun.
Á árinu skilaði starfshópur um landtengingar tillögum að aðgerðaráætlun. Ljóst má vera af þeim tillögum að töluverðrar fjárfestingar er þörf svo landtengja megi öll skip sem hingað koma á næstu árum og þá sér í lagi stærstu skemmtiferðaskip. Taka þarf samtalið við Veitur um þróun þess verkefnis, m.a. við skiptingu kostnaðar og gjaldskrá. Sambærileg vinna fer fram í öðrum höfnum í Evrópu og fylgst verður grannt með þróuninni þar.
Eignaraðilar Faxaflóahafna sf. og eignarhlutir þeirra voru í lok desember 2020 eftirfarandi:
Reykjavíkurborg | 75,5551% |
Akraneskaupstaður | 10,7793% |
Hvalfjarðarsveit | 9,3084% |
Borgarbyggð | 4,1356% |
Skorradalshreppur | 0,2216% |