Fjárfestingar og framkvæmdir

Fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2020

 

Helstu verkefni voru eftirfarandi:

 

  • Í Gömlu höfninni í Reykjavík var áfram unnið að framkvæmdum við söluhýsi hafsækinnar ferðaþjónustu á Ægisgarði sem lokið var við á haustdögum 2020. Gerðir voru göngupallar umhverfis húsin og öll göngusvæði og lýsing endurnýjuð.  Einnig voru hluti lagna í götunni endurnýjaðar. Reist var ný dreifistöð á Faxagarði með rými fyrir vaktaðstöðu með snyrtingu, spennistöð, inntök lagna auk rýmis fyrir búnað vegna landtenginga skipa. Áformun um endurnýjun lagna á Faxagarði var hins vegar frestað. Lýsing á Austurbakka var endurnýjuð í tengslum við aðrar framkvæmdir þar. Lokið var við frumhönnun á nýrri bryggju við sjóminjasafnið en framkvæmd að öðru leyti frestað. Lokið var við endurnýjun á þaki Grandaskála. Verkefnið hefur verið unnið í áföngum.  Framkvæmdir við Öldubrjót í Suðurbugt voru kláraðar auk þess sem viðhaldsdýpkun lauk á árinu.
  •   Í Sundahöfn var dýpkað á innsiglingar- og snúningssvæði Sundabakka. Alls voru fjarlægðir um 280.000  m³ af efni sem losað var í fyrrum námusvæði við Engey. Verkið var unnið í desembermánuði og var að fullu lokið fyrir áramót.  Einnig var lokið við dýpkun á aðsiglingu og snúningssvæði Vogabakka í Kleppsvík. Farþegaaðstaða á ytri legu Skarfabakka var stækkuð og aðstaðan á syðri legunni endurnýjuð. Lokið var við fyllingu við Laugarnes og gengið frá sjóvörnum við hana. Meginhluti fyllingarefnis og grjót í sjóvarnir komu úr grunni nýs Landspítala.  Undirbúningsvinna fyrir framtíðarþróun Sundahafnar fór í gang, þ.á.m. mat á umhverfisáhrifum fyrir þær framkvæmdir.  Þróunarvinna vegna landtenginga í Sundahöfn hófst á árinu auk þess sem framkvæmdir vegna nýs innsiglingamerkis fóru af stað.
  • Á Grundartanga var unnið að ýmsum smærri undirbúningsverkum við þróun og úthlutun lóða en framkvæmdir bíða þess að hreyfing komist á úthlutanir lóða fyrir starfsemi á svæðinu. Einnig var unnið þar að viðhaldi slitlags auk þess sem efra malbikslag var lagt á 2. áfanga Tangabakkans. Keyptir voru nýir fenderbelgir á helming Tangabakka.
  • Á Akranesi var áfram unnið að undirbúningi að endurnýjun og lengingu fremsta hluta Aðalhafnargarðs. Í framkvæmdinni felst að reka stálþil utan á fremsta hluta Aðalhafnargarðsins og lengja hann um 110 metra þannig að lengd viðlegu við þennan hluta garðsins verður um 220  metrar.
  •  Annað: Á árinu 2018 var boðin út smíði á nýjum dráttarbáti fyrir Faxaflóahafnir og miðað við að sá bátur hefði 80 tonna dráttargetu.  Báturinn kom til landsins í febrúar 2020. Hann var að stærstum hluta greiddur á árinu 2019. Vandamál komu fljótlega í ljós varðandi rekstur hans og er hann í lagfæringum hjá framleiðanda.

Með nettó fjárfestingu er átt við fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum að frádregnum seldum rekstrarfjármunum og lóðasölu.